
Barnavörur
Börn
Tilkynning
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) vill vara forráðamenn barna við mögulegri hættu sem fylgt getur notkun á snudduböndum sem innihalda viðarklemmur eða aðra viðaríhluti. Stofnuninni hefur borist nokkrar tilkynningar um að slíkar viðarklemmur hafi brotnað við notkun. Í þeim málum sem komið hafa til skoðunar virðist viðurinn hafa morknað eða brotnað.
Viður er náttúrulegt efni sem bólgnar, mýkist og veikist þegar hann blotnar eða verður fyrir endurteknum raka, til dæmis frá slefi. Þegar þetta gerist geta:
- trefjarnar mýkst
- efnið veikst
- yfirborðið morknað
- sprungið eða brotnað
Ef viður er ekki sérstaklega húðaður, lakkaður eða meðhöndlaður fyrir raka verður hann mun viðkvæmari fyrir sliti og morknun. Brot úr viðarklemmum geta valdið köfnunarhættu fyrir ung börn ef þau losna af snuddubandinu.
HMS hvetur foreldra og forráðamenn eindregið til að:
- Yfirfara snuddubönd með viðarhnöppum eða viðarklemmum reglulega og athuga hvort merki séu um sprungur, molnun eða aðrar skemmdir
- Hætta undir eins notkun ef merki um minnstu skemmdir finnast eða ef óvissa vaknar er um öryggi vörunnar
- Tilkynna til HMS ef grunur vaknar um óörugga vöru eða ef snudduband brotnar
Öryggi barna er í fyrirrúmi og vill HMS minna á mikilvægi þess að fylgjast reglulega með ástandi allra snuddubanda og smábarnaáhalda til að tryggja örugga notkun.
Deildu











