26/9/2025

Eftirlit með ungbarnadýnum

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur framkvæmt úttekt á 15 barnadýnum í stærðinni 60 x 120cm sem eru í sölu hér á landi. Yfirdýnur voru ekki með í úttektinni. Dýnurnar komu frá fjórum söluaðilum.

Niðurstöðurnar sýndu að 11 dýnur uppfylltu kröfur og voru án athugasemda. Hins vegar voru gerðar athugasemdir við fjórar dýnur vegna skorts á mikilvægum upplýsingum og gögnum sem sýna að dýnurnar uppfylli lágmarkskröfur um öryggi.

Ekki tókst að sýna fram á að þessar fjórar dýnur uppfylli meðal annars eftirfarandi öryggiskröfur:

•  Stærð og lögun: Dýnan þarf að passa vel í rúmið og má ekki skilja eftir op við kanta.

•  Efnisval: Dýnan má ekki innihalda skaðleg efni sem getað ógnað heilsu barnsins.

•  Loftflæði: Dýnan þarf að tryggja nægilegt loftflæði um efnið og yfirborðið.

•  Eldvarnareiginleikar: Dýnan á að veita mótstöðu gegn eldi og hita, hún má ekki brenna hratt.

Þrjár dýnur voru ekki með leiðbeiningarnar á íslensku, ensku, dönsku, sænsku eða nosku.

Fjórar dýnur hafa verið teknar úr sölu þar til fram hafa verið lögð fullnægjandi gögn sem sýna að þær séu framleiddar í samræmi við gildandi öryggiskröfur.

HMS hvetur neytendur til að vera vakandi þegar kemur að öryggi barnavara og leita ætíð eftir upplýsingum um vottanir, merkingar og leiðbeiningar áður en kaup eru gerð.

Heiti stofnunar

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS)

Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur

Á evrópska efnahagssvæðinu (EES) þurfa dýnur í ungbarnarúm að uppfylla staðalinn EN 16890:2017 + A1:2021. Staðallinn felur í sér prófanir og öryggiskröfur sem miða að því að vernda ung börn gegn hugsanlegum hættum sem tengjast dýnunni sjálfri.  

Barnadýnur eiga ekki að vera CE merktar, sama á við um t.d. barnarúm, barnavagna og barnakerrur. Ef barnadýna er CE merkt vekur það spurningar um hvort framleiðandi eða dreifingaraðili þekki og uppfylli þær reglum og öryggiskröfum sem gilda um barnavörur.  Leikföng aftur á móti, eiga að bera CE merki.

Deildu