Eftirlit með barnarimlarúmum
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) kannaði barnarimlarúm sem eru í sölu hér á landi, með áherslu á merkingar, aðvaranir og fylgiskjöl, s.s. samsetningarleiðbeiningar.
Markmiðið með skoðuninni var að tryggja öryggi yngstu neytendanna með því að ganga úr skugga um að rimlarúm uppfylli settar reglur og staðla um merkingar og leiðbeiningar. Réttar upplýsingar skipta sköpum fyrir rétta notkun og öryggi barnsins. Skortur á merkingum geta skapað hættu.
Í heildina voru skoðuð 10 barnarimlarúm, og reyndust 2 þeirra vera með frávik sem kalla á athugasemdir.
Um var að ræða ófullnægjandi merkingar eða skort á nauðsynlegum upplýsingum, sem dæmi:
· Samsetningarleiðbeiningar fylgdu ekki með.
· Það kom ekki fram hvaða hæðastaða er öruggust fyrir barnið ef rúmið er stillanlegt
· Vantar upplýsingar um hámarks þykkt dýnu
· Lágmarksbreidd og lengd dýnu sem má nota, bilið milli dýnu og rúms má ekki vera meira en 3 cm.
· Skortur var á öllum viðvörunum.
· Skortur var á leiðbeiningum um þrif
Rúmin tvö sem um ræðir voru strax tekin úr sölu í kjölfar athugunarinnar.
HMS vill jafnframt nota tækifærið og þakka verslunum sem heimsóttar voru fyrir góðar móttökur og samstarfsvilja.

Heiti stofnunar
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS)
Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur
Réttar merkingar og leiðbeiningar skipta máli
Það er mikilvægt að framleiðendur og dreifingaraðilar sjái til þess að allar nauðsynlegar upplýsingar fylgi með vörum, sérstaklega þegar um er að ræða barnavörur. Skortur á slíkum upplýsingum getur leitt til rangrar notkunar og skapað hættu fyrir barn.
HMS hvetur neytendur til að ganga úr skugga um að samsetningarleiðbeiningar fylgi með barnarimlarúmum og að allar nauðsynlegar merkingar séu til staðar áður en rúmið er sett saman og tekið í notkun. Ef grunur vaknar um að eitthvað sé ábótavant, er hægt að senda ábendingu á voruvaktin.is eða hafa samband við seljanda til að óska eftir upplýsingum.
Deildu





