15/8/2025

Merkingar á skóm

Eftirlit með merkingum á skóm er í höndum Neytendastofu. Um merkingar efnis í skófatnaði gilda sérstakar reglur, líkt og við á um textílvörur en skv. reglunum telst til skófatnaðar allar vörur með sólum sem ætlað er að verja eða þekja fætur. Einungis er heimilt að markaðssetja skófatnað ef upplýsingum um samsetningu hans er komið á framfæri með merkingum. Notast skal við viðurkennd heiti og á sérstöku formi sem kveðið er sérstaklega á um í reglum. Á skóm er heimilt að notast við skýringarmyndir í stað texta en upplýsingarnar skulu að minnsta kosti tilgreindar á öðrum skó hvers pars. Þetta er hægt að gera með því að prenta upplýsingarnar, líma þær eða greypa á skóinn eða nota á fastan merkimiða. Merkingarnar skulu vera læsilegar, aðgengilegar og skýringamyndir skulu vera nægilega stórar.

Heiti stofnunar

Neytendastofa

Vöruheiti

Merkingar á skóm

Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur

Um merkingar á skóm gilda reglur nr. 381/2007, um merkingar efnis í skófatnaði. Í reglunum er að finna nákvæmar upplýsingar um hvað telst til skófatnaðar, hvernig ber að haga merkingum auk þess sem þar er að finna í viðauka skilgreiningu á efnum og samsvarandi skýringarmyndum sem notast má við. Fyrir neðan má sjá dæmi um merkingar á skóm. Frekari upplýsingar um textílvörur eru hér á heimasíðu Neytendastofu.

Deildu