14/8/2025

Textílvörur

Eftirlit með textílvörum er í höndum Neytendastofu og ber framleiðendum textílvara að merkja vörur sínar með þar til gerðum merkingum. Textílvörur eru allar vörur sem unnar eru úr textíl. Textíll  eru ýmis konar efni sem framleidd eru úr þráðum af mismunandi uppruna eins og til dæmis ull, bómull og viskós. Ef vara hefur verið framleidd utan Evrópu og ber ekki textílmerkingar í samræmi við gildandi reglur ber innflytjandi ábyrgð á að bæta úr upplýsingagjöfinni þannig að tryggt sé að neytendur séu ávallt rétt upplýstir.

Í reglunum er ekki fjallað um skyldu til að merkja vörur með þvottaleiðbeiningum eða stærð heldur innihald textílsins, þ.e. úr hvaða efni varan er framleidd, hvaða textílheiti skuli notast við og að skýrt skuli greina frá prósentuhlutföllum ef um textíltrefjablöndu er að ræða. Þá skal þess gætt ef varan er sett saman með mörgum efnisþáttum, t.d. þegar flík er fóðruð, skal gefa upplýsingar um hvern efnisþátt fyrir sig.

Heiti stofnunar

Neytendastofa

Vöruheiti

Textílvörur

Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur

Um textílvörur gilda reglur nr. 220/2015, um heiti og merkingu textílvara, sem innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1007/2011 og nr. 286/2012. Textílvörur í skilningi reglnanna eru allar vörur sem unnar eru úr textíl, þ.e. ýmis konar efni sem framleidd eru úr þráðum af mismunandi uppruna eins og til dæmis ull, bómull og viskós.

Á heimasíðu stofnunarinnar eru aðgengilegar ákvarðanir sem teknar hafa verið af Neytendastofu sem byggja á reglum um textílmerkingar.

Frekari upplýsingar um textílvörur má finna á heimasíðu Neytendastofu.

Deildu