Innflutningur skemmtibáta
Skemmtibátur (e. recreational craft) er hvers konar bátur sem er ætlaður til íþrótta og tómstunda, óháð því hvernig hann er knúinn áfram. Þetta á við um báta með bollengd frá 2,5 m til 24 m sem og allar sæþotur sem eru styttri en 4 m.
Innflutningur skemmtibáta er háður samþykki Samgöngustofu. Stofnunin metur hvort skemmtibátar uppfylli reglur og öryggiskröfur sem gilda. Það sama á við um hálfsmíðaða báta, íhluti og vélar í skemmtibáta.
Keppnisbátar, kanóar, kajakar, brimbretti, gondólar og hjólabátar eru undanþegnir þessum reglum. Sama gildir um upprunalega sögulega báta sem hannaðir voru fyrir 1950, sem og tilraunabáta.

Hvað ber að varast
Skemmtibátar sem smíðaðir eru eftir 16. júní 1998 verða í öllum tilvikum að vera CE-merktir, óháð því í hvaða landi þeir voru smíðaðir.
Um skemmtibáta sem smíðaðir eru fyrir þá dagsetningu gildir í meginatriðum að:
1) Bátar frá EES (Evrópska efnahagssvæðinu): Ef báturinn var smíðaður eða fluttur inn á svæðið fyrir 16. júní 1998 þarf hann ekki að vera CE-merktur.
2) Bátar frá þriðja landi (utan EES): Ef báturinn er ekki CE-merktur er ekki heimilt að flytja hann til lands innan EES.
3) Bátar sem koma frá þriðja landi, en voru sannanlega smíðaðir í landi innan EES eða teknir í notkun þar fyrir 16. júní 1998, þurfa ekki að uppfylla kröfuna um CE-merkingu.
Reglur 592/1994 (Norðurlandareglur) gilda fyrir báta sem eru 6-15 m og smíðaðir fyrir 16. júní 1998.
Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur
Ef skemmtibátur sem skylt er að CE-merkja en hefur ekki verið CE-merktur af framleiðanda áður en hann var fluttur til landsins, getur innflytjandi hans staðið frammi fyrir tveimur kostum:
- Að láta framkvæma nauðsynlegar prófanir á bátnum hjá viðurkenndum aðila til að fá CE-merkingu. Þetta getur falið í sér kostnað.
- Að senda bátinn út af Evrópska efnahagssvæðinu.
Nánari upplýsingar um innflutning skemmtibáta má finna á vef Samgöngustofu.
Sérhvert skip, 6 m og lengra, er skráningarskylt á Íslandi líkt og kemur fram í II. kafla skipalaga, nr. 66/2021.
Deildu