Verum sýnileg með öruggt endurskinsmerki
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hvetur alla vegfarendur til að nota endurskinsmerki nú þegar dagarnir styttast og skólarnir hefja göngu sína á ný. Börn eru sérstaklega viðkvæmur hópur í umferðinni, og rétt notkun endurskinsmerkja getur skilið á milli lífs og dauða.
Við val á endurskinsmerkjum er mikilvægt að hafa í huga að ekki er hægt að meta gæði þeirra með berum augum. Þess vegna hvílir rík skylda á framleiðendum, innflytjendum, dreifingaraðilum og söluaðilum að tryggja að merkin uppfylli allar öryggiskröfur.
HMS hvetur fólk til að skoða vel merkingar á vörunni eða umbúðum. Endurskinsmerki eiga að vera CE-merkt og með staðalsnúmerinu EN 17353. Slík merking er staðfesting á að varan hafi verið prófuð og veiti það öryggi sem ætlast er til.

Heiti stofnunar
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS)
Hvað ber að varast
Endurskinsmerki eiga að vera CE-merkt og með staðalsnúmerinu EN 17353
Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur
Endurskinsmerki sem ekki standast kröfur geta skapað falskt öryggi. Viðurkennd merki gera einstakling sýnilegan fyrir ökumann með lágu ljósin í allt að 125 metra fjarlægð. Merki sem ekki uppfylla staðalinn gera hann hins vegar ekki sýnilegan fyrr en í aðeins 30 metra fjarlægð, munurinn getur ráðið úrslitum.
Ábendingum um endurskinsmerki sem grunur leikur á að uppfylli ekki kröfur má koma á framfæri við HMS í gegnum heimasíðuna: www.voruvaktin.is
Deildu