17/9/2025

Eftirlit með orkumerkingum hvítvara og eldunartækja

Fyrr á árinu stóð Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) fyrir markaðseftirliti með orkumerkingum á hvítvörum og eldunartækjum, sem eru meðal algengustu heimilistækja í notkun. Um var að ræða kælitæki, þvottavélar, þvottavélar með þurrkara, þurrkara, uppþvottavélar, gufugleypa og bakarofna. Heimsóttir voru tólf rekstraraðilar á höfuðborgarsvæðinu og alls voru 1.148 tæki skoðuð.

Niðurstöður voru jákvæðar í heild: 88% tækja voru rétt merkt og án athugasemda. Af þeim 1.148 tækjum sem skoðuð voru, voru 1.012 í samræmi við reglugerð, en frávik komu fram hjá 136 tækjum. Þau frávik skiptust í tvo meginflokka: annars vegar vantaði orkumerkinguna alfarið og hins vegar var hún ófullnægjandi.

Ellefu af tólf fyrirtækjum brugðust hratt og vel við athugasemdum og leiðréttu merkingar í samræmi við kröfur. Costco gerði hins vegar ekki nauðsynlegar úrbætur og voru lagðar dagsektir á fyrirtækið í samræmi við ákvæði laga og reglugerða.

Markaðseftirlit tryggir trúverðugleika kerfisins

Skipulegt markaðseftirlit, líkt og það sem HMS framkvæmir reglulega, tryggir að neytendur geti treyst því að upplýsingar á miðum séu réttar og samanburðarhæfar. Slíkt eftirlit styður einnig við sanngjarna samkeppni og ver fyrirtæki sem leggja sig fram um að fylgja reglum.

HMS mun áfram hafa virkt eftirlit með orkumerkingum og visthönnun til að stuðla að öflugum og áreiðanlegum markaði með orkunýtin heimilistæki.

Heiti stofnunar

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS)

Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur

Af hverju skipta orkumerkingar máli fyrir neytendur?

Orkumerkingar eru ekki aðeins lagaleg krafa, þær veita neytendum mikilvægar upplýsingar sem gera þeim kleift að:

  • bera saman orkunýtingu tækja og taka upplýsta ákvörðun við kaup,
  • spara orku og lækka rafmagnsreikninga,
  • stuðla að minni umhverfisáhrifum með því að velja sparneytin tæki,
  • hvetja framleiðendur til nýsköpunar og orkunýtni, þar sem hærri orkunotkun getur dregið úr samkeppnishæfni vöru á markaði.

Hvítvörur og eldunartæki eru í notkun daglega á flestum heimilum og hafa veruleg áhrif á heildarorkunotkun heimila. Rétt og sýnileg orkumerking er því lykilatriði til að styðja við sjálfbærar neysluvenjur og markmið stjórnvalda í loftslagsmálum.

 

Deildu