Barnabílstólar - Sessur með baki
Sessur með baki, á ensku booster seat, eru bílstólar sem henta börnum sem hafa náð 100 cm að hæð og flestir eru nothæfir upp að 135-150 cm. Þessir bílstólar hækka barn í bílsætinu þannig að öryggisbelti bílsins liggi rétt yfir öxl og mjaðmir. Bakið veitir aukin þægindi og hliðarvernd, sérstaklega við hliðarárekstur.
Þessi tegund bílstóla virkar oft einföld í notkun en mikilvægt er að lesa vel og vandlega leiðbeiningarnar sem fylgja með stólnum. Þar koma fram mikilvæg atriði um hvernig á að festa stólinn – bæði þegar hann er í notkun og ekki. Margir þessa stóla koma með ISOFIX festingum meðan aðrir eru einungis festir með bílbelti.
Í leiðbeiningunum getur komið fram að sumir þessara stóla þurfa ávallt að vera festir með bílbelti, óháð því hvort barn sitji í stólnum eða hvort stóllinn er festur með ISOFIX festingum. Stóll sem er ekki rétt festur getur skapað mikla hættu ef slys verður.
Bílstólar eru einungis öruggir ef þeir eru rétt notaðir og því skiptir miklu máli að lesa leiðbeiningarnar vel áður en stóll er tekin í notkun.

Heiti stofnunar
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS)
Gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur
- Lestu alltaf leiðbeiningar sem fylgja stólnum áður en hann er settur í bílinn.
- Sumir bílstólar þurfa alltaf að vera festir með belti, líka þegar þeir eru ekki í notkun.
- Mikilvægt er að velja stól sem hentar bílnum, ekki allir stólar passa í öll ökutæki.
Deildu